Á föstudagsmorguninn var svo haldið til Hamborgar með viðkomu á Kastrup þar sem slakað var á í smá stund. Borðaðir ávextir og sötraður Leppin kolvetnisdrykkur. Sama prógram og á fimmtudaginn 240gr af hleðsludufti. Var einnig með Organic Food Bar orkustykki sem eru alveg ótrúlega góð og holl orkustykki sem fengu meira að segja stimpil frá Ásgeiri járnkalli. Eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið okkar, sem var frábærlega staðsett, röltum við og náðum okkur í rásnúmerin og skoðuðum hlaupadót. Ég sá þar nýja, fallega, rauða, Asics DS-Racer skó, sem ég féll alveg fyrir. Var sko búinn að sannfæra sjálfan mig um að hlaupa í Trainer-um og að það væri það eina rétta. En eftir að hafa skoðað þessa skó var ekki aftur snúið – mínir skyldu þeir verða. En keypti þá þó ekki – í þetta skiptið ;-). Um kvöldið fórum við Jói, Guðmann og Huld á frábæran japanskan veitingastað (Matsumi) og borðuðum Sushi, Sashimi, núðlusúpur, Tofu og síðast en ekki síst grænt te, sem ég hef ofurtrú á. Eftir matinn var svo haldið á hótel og sofnaði ég eins og ungabarn um leið og ég lagðist á koddann.
Eftir morgunmatinn á laugardaginn var tekinn ca 20mín hlaupatúr með öllum hópnum og hlupum við í fallegum blómagarði sem er við rásmarkið. Eftir hlaupið var gert smá flögu tékk, yfirskin til að kaupa skó, og svo keypti ég mér rauðu, fínu skóna. Keypti mér hálfu númeri stærri skó en venjulega og átti það eftir að vera mikið gæfuspor. Hef alltaf farið illa á löppunum eftir maraþon og skýringin auðvitað einföld – litlir skór. Laugardagurinn fór svo mest í slökun, legið upp í rúmi og lesin bók. Um kvöldið fór hópurinn svo saman á ítalskan veitingastað og fengu sér flestir pasta og áttum við góða stund saman. Ég held að allir hafi farið sáttir út af staðnum, útbelgdir af kolvetnishleðslu dagsins. Á laugardaginn hlóð ég með EAS hleðslunni, þ.e. fram að kvöldmat. Eftir alla þessa hleðslu voru margir komnir með hausverk og flestir alveg búnir að fá nóg af öllu kolvetnisátinu. Svo var farið snemma á hótelið, aðeins stoppað á barnum og drukkið grænt te J. Mér gekk ekkert sérstaklega vel að sofna, stressaðist aðeins upp við að máta gallann og næla rásnúmerið í bolinn. Vaknaði rétt fyrir 0600 á sunnudagsmorgun og stutt í hlaupið..... Morgunverður: 2 brauðsneiðar með banana, smá grænt te, Organic Food Bar – Vegan orkustykki, ca 400ml af hleðsludrykk og svo 500ml af Leppin orkudrykk. Nestið í hlaupinu var 500ml flaska af Leppin orkudrykk (sötraði af henni fram að hlaupi) og 4stk GU gel. Teipaði á mér hæla og táberg, klæddi mig í galla og var tilbúinn í slaginn. Hópurinn hittist svo fyrir framan hótelið kl. 0800 og löbbuðum við saman uppeftir og allir í góðum fíling. Aðstæður voru frábærar fyrir hlaupið, hægt að skipta um föt inni og vel gekk að losna við föt og engar biðir eftir neinu og fjarlægðir ekki miklar. Þegar stutt var í hlaupið fundum við klósett með lítilli röð. Svo sem ástæða fyrir því - vorum stödd í hjólastólastartinu....
Nú var þetta að verða spennandi og stutt í start. Jói, Guðmann, Valur, Martha og ég vorum í starti B - nánast í fremstu víglínu. Síðustu mínúturnar var stemmningslagið e-r undarlegur þýskur slagari. Svo PÆNG og allir fóru af stað. Hitastig var ca 8°C og nánast logn. Við hlupum 4 saman út úr hliðinu og fylgdumst að fyrri hluta hlaupsins. Það var alveg meiriháttar þægilegt. Fundum taktinn okkar fljótlega nema hvað fyrsti kílómetrinn var frekar hægur og undruðumst við á því hvað margir höfðu komist fram úr okkur í upphafi. Fyrstu kílómetrarnir voru voða þægilegir og ótrúlegur styrkur að hlaupa með þessum frækna hópi. Ég hljóp af stað með brúsann minn og hann dugði mér fram yfir fyrstu drykkjarstöð. Þá var ég búinn að sötra 500ml af Leppin orkudrykk síðan kl. 0800.




Splitt:
10km 40:22
20km 01:19:26 - 39:05
30km 01:58:22 - 38:56
40km 02:37:03 - 38:41
42.2km 2:45:37