þriðjudagur, 4. október 2005

BERLÍNAR MARAÞON 2005

Ég svaf ágætlega fyrir hlaupið en var þó vaknaður rétt áður en klukkan mín hringdi, rétt fyrir 0600. Fyrsta verk dagsins var að fá mér brauð með íslenskum bönunum og smá vatnssopa. Hef þann ágæta sið að taka með mér samlokubrauð og banana að heiman þegar ég fer í svona ferðir. Tek engar áhættur á síðustu stundu með mat sem ég þekki ekki. Eftir það tók við blöndun íþróttadrykkja og svo byrjaði ég að sötra síðustu blönduna af carbólódinu. Rölti niður í morgunverðarhlaðborðið. Þar var fullt af hlaupurum sem borðuðu allt milli himins og jarðar, og sumt sem ég myndi aldrei láta ofan í mig. En ég fékk mér einn ketil af æðislegu Earl Gray tei og eina brauðsneið með hunangi til að fullkomna þetta. Stoppaði nú ekki lengi í morgunmatnum heldur fór aftur upp og hélt áfram að sötra drykki og gera mig kláran. Ég ákvað að hlaupa með drykkjarbelti, aðalega vegna fjöldans sem var í hlaupinu og svo einnig hafði ég tekið eftir því að ekki var boðið upp á orkudrykki fyrr en eftir 21km. Ég var með þrjá brúsa með orkudrykk og svo 1 EAS gel (100ml) og 3 Squeezy gel. Var ótrúlega rólegur og loksins var runninn upp dagur sem maður var búinn að bíða lengi eftir.

Ég ákvað að fara ekkert of seint af stað enda var ég ekki alveg viss um vegalengdir og hvað tæki langan tíma að koma fötum í geymslu o.s.frv. Ég rölti því af stað og fljótt byrjuðu göturnar að fyllast af hlaupurum sem voru á sömu leið og ég. Eftir dálítið labb fann ég svo vagninn sem geymdi föt fyrir mitt rásnúmer, Ótrúlega flott skipulagning, engin bið, maður henti bara poka merktum rásnúmeri sínum upp í bíl þar sem pokinn var geymdur á meðan hlaupinu stóð. Hafði séð langar raðir bíðandi eftir klósettum en ég ákvað að sleppa þeim og notast við tré og runna á leiðinni niður að ráslínu sem átti eftir að vera snjöll ákvörðun. Á leiðinni, í öllu mannhafinu, hitti ég svo vinkonurnar Sibbu og Huld, sem mér þótti ofskaplega gott og óskaði ég þeim góðs gengis. Þeim átti svo sannarlega eftir að ganga vel. Eftir dálitla ranghala fann ég svo á startgrúbbuna mína, 2:50-3:00 og labbaði þá beint upp að Birki og Jói kom stuttu seinna. Alveg frágært að ramba svona beint á hlaupafélagana.

Svo leið tíminn og loks var skotið af stað. Við komumst nokkuð fljótt yfir línuna en eftir það var dálítil stappa og við þrír reyndum eftir besta megni að smokra okkur áfram án þess að vera að sikk-sakka of mikið. Það tók okkur svona 4km að ná réttum dampi. Við hlupum saman fyrstu 15km og þá týndi ég þeim félögum mínum en mig grunaði að þeir væru ekki langt undan og bjóst allt hlaupið við að sjá þá aftur. Stemmningin er ótrúleg í brautinni, samfelld röð af áhorfendum sem hvöttu hlaupara áfram á framandi tungu og spiluðu á hljóðfæri og sprelluðu. Jæja, ég hélt áfram aleinn og náði ekki að finna mér hóp til að hlaupa með en svona reyndi að setja mið á hlaupara sem voru á svipuðu róli og ég. Svona liðu kílómetrarnir, frekar léttir, ég á góðu róli, kannski aðeins of hratt hugsaði ég en hvað um það, betra að taka áhættu og sjá eftir því sem ég geri en að slaka á og sjá eftir einhverju sem ég geri alls ekki, þ.e. spenna bogann.... Brúsarnir týndust og svo þegar ég kom á 23km fékk ég mér squeezy gel og vatn. Fékk lítillega í magann eins og ég er gjarn á og panikkaði dálítið. Hafði áhyggjur að ég þyrfti að gera e-ð mikið og það strax, horfði á næstu runna og skimaði eftir kömrum en sá mig ekki alveg fyrir mér hoppa í gegnum mannþröngina og ..... Sem betur fer leið þetta hjá og maginn komst í gott lag. Á næstu 10km fékk ég mér EAS gelið og leið enn ágætlega. Var á ca. 2:00 eftir 30km og fannst ég ekkert vera farinn að lýjast. Var kominn með smá blöðru undir hægri fótinn en það var ekkert að trufla mig. Svo gerðist það stuttu seinna, eða á ca 33km að ég fór að missa dampinn. Þá fóru hugsanir eins og - hvað í andskotanum er maður að leggja á sig og fleiri skemmtilega að sækja á mann. Ég bægði þeim þó frá með því að hugsa um markið, fjölskylduna mína og alla þá klukkutíma sem ég hafði lagt í æfingar fyrir hlaupið. Já, og svo auðvitað markmiðið mitt sem var að klára á 2:48.48 sem er 4mín meðaltempó. Nú þegar þreytan var farinn að ná tökum á mér hugsaði ég meira um hvern kílómetra, og skipta restinni niður í vegalengdir og leiðir sem ég er vanur að hlaupa. En svo allt í einu sé ég Branderburgarhliðið, og ekki nóg með það. Þarna var mættur hlaupari sem var búinn að vera í kringum mig í dálítinn tíma og allt í einu var hann kominn nokkuð á undan mér. Ég tek þvílíkan sprett, í þeirri von að endamarkið sé rétt handan við Branderburgarhlið. Spóla í gegnum hliðið með hendur upp í loft og fagna eins og sannur sigurvegari. Það vantaði bara eitt - það var markið. Ég stoppa þó eftir þennan svakalega sprett og fagna, áhorfendur taka vel við sér enda 7000 manna bekkir þarna og líklega ekki vanir að menn stoppi bara til að fagna þarna. EN svo er pikkað í öxlina á mér og bent fram á veginn. Þar sé ég grilla í upplásið mark og ég fer aftur af stað. Tek svo annan sprett í lokin og kem sæll og sáttur og ferlega ringlaður í markið, á nýju persónulegu meti 2:52:35. Nú tók við þrautarganga, labbaði fyrst í rauðakrosstjald og fékk plástur á blöðruna mína. Drakk svo ógeðslega mikið af öllu sem til var, vatn, te, gatorade og borðaði banana og epli. Svo hélt ég uppeftir að fatapokanum mínum. Á leiðinni fékk ég nudd frá nuddnema og var það voðalega gott.

Restin af deginum fór svo í að spranga um svæðið, og að lokum komast upp á hótel. Ætli maður hafi ekki labbað annað maraþon á eftir....

Um kvöldið hittust svo megnið af Íslendingunum og við fengum okkur að borða og nutum kvöldsins saman. Gaman að sjá hvað margir voru að bæta sig. Frábær dagur!!!! Og ég get með sanni sagt að ég sé ekki síðri berlínarbolla en JFK.