sunnudagur, 28. september 2008

Fín hlaupavika

Þessi hlaupavika hefur verið góð. Meiðslin hafa ekkert verið að hrjá mig og hef ég náð að hlaupa á hverjum degi.

Á mán/mið/fös voru stuttar vaxandi æfingar í hádeginu. 8km þar sem sem 6km eru vaxandi og svo 2km niðurskokk í lokin. Ágætt að leyfa löppunum aðeins að hreyfast án þess að vera að gera neitt of krefjandi.

Morgunskokk eru fastir punktar á þriðju- og fimmtudögum.

Á laugardaginn hljóp ég svo í 90mín og í morgun hljóp ég í 62mín vaxandi.

Samtals hljóp ég 80km í vikunni. Það er ágætismagn og mér finnst ég ráða ágætlega við það.

laugardagur, 27. september 2008

Kominn á skrið...

Þá er ég aftur kominn á skrið í hlaupunum eftir frekar langt tímabil meiðsla.

Nú er efst á blaði að ná mér að fullu og koma mér í form fyrir vormaraþon. Ég vonast til að hlaupa í London næsta vor en einnig kemur til greina að hlaupa í París, Hamborg, Rotterdam eða Boston.

Ég ætla leggja áherslu á að byggja upp grunnform í september og október. Í nóvember ætla ég að taka nokkrar vikur í brekkuspretti og í desember ætla ég að sauma við hefbundna áfangaspretti. Þá á ég að vera kominn með smá hraða í lappirnar og búinn að tjúna VO2 kerfið nægjanlega mikið áður en maraþonæfingarnar byrja. Mér finnst það virka vel fyrir mig að vera búinn að taka dálítið af sprettum áður en maraþonæfingar hefjast. Maraþonprógrammið verður síðan eins og fyrir þrjú síðustu hlaup og mun byggjast upp á löngum (28-36) og millilöngum (18-24km) hlaupum þar sem hraðinn er 10-20% frá MP ásamt löngum tempóhlaupum.

Fyrir ca ári síðan setti ég upp þessi markmið hér á síðunni:

2008 SUB240 um haustið. (CHI/BER/AMS)
2009 Vormaraþon, Laugavegurinn.
2010 Comrades, upphlaup sem er víst miklu betra.
2011 100km
2012 Western States

Þetta er greinilega fínt plan sem er ágætt að halda sig við. Samt yrði ég ekki hissa ef ég prófaði að hlaupa 100km fyrr en stóð til fyrir ári síðan.