þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Stuðningur frá Sportís umboðsaðila Asics

Í dag fékk ég frábæran stuðning frá Sportís umboðsaðila Asics á Íslandi. Þeir ætla að sjá mér fyrir skóm og hlaupafatnaði sem er gríðalega mikils virði fyrir mig. Ég var eiginlega orðlaus og ringlaður yfir hversu vel var tekið á móti mér hjá Sportís. Frábært að Sportís kjósi að styðja svona vel við bakið á okkur Evu sem komum úr hlaupahópum. Það sýnir vel hversu mikil gróska er í hlaupahópunum og frábært að fylgjast með öllu því fólki sem er að blómstra í þeim.

Það er sérstaklega ljúft að fá stuðning frá Asics þar sem ég hef aldrei hlaupið í öðrum skóm síðan ég byrjaði að hlaupa árið 2002. Ég hef hlaupið nánast allar æfingar í Nimbus. Byrjaði í Nimbus III og hef hlaupið út 2-4 pör á ári síðan :-). Einnig hef ég alltaf notað DS-Trainer í áfanga- og tempóæfingar og öll nema fyrsta maraþonið mitt hef ég hlaupið í DS-Racer sem og í styttri keppnishlaupum. Ég hef líka yfirleitt valið Asics hlaupaföt þegar ég hef verið að versla og hafa þau reynst frábærlega vel.

Svona stuðningur hvetur mig auðvitað þvílíkt til dáða og nú er ekki spurning að markið verður sett hærra en ég hef stefnt að hingað til!!!