fimmtudagur, 30. september 2004

fimmtudagstempó.

í fyrsta skipti í langan tíma mætti ég á lögboðinn æfingatíma LHF. Ég og Gerður, sem hafði ekki sést lengi á hlaupum, ákváðum að hlaupa klassískan Viktor. Það var heilmikill mótvindur á Ægisíðu og alla leið inn Fossvoginn. Auðvitað var líka fullt af rigningu en e-n veginn náðum við að berjast á móti roki og rigningu á ágætum ferðahraða. Við ákváðum að snúa við eftir 8km við Víkingsheimilið og hlaupa sömu leið til baka með vindinn í bakið. Rétt eftir snúning kom Birkir sem hafði verið seinn fyrir og við hlupum þrjú til baka á þokkalegu tempói. Æfingin var ágæt - 16km og tempóið í lagi.

miðvikudagur, 29. september 2004

hlaup + sund

Byrjaði daginn á 11km hlaupi kl. 0630. Hlaupið í góðu veðri með LHF-félögum frá Vesturbæjarlaug - upp Laugaveginn, yfir Miklatún, Hlíðar, Niður Suðurhlíð, Nauthóll og Ægisíða.

Í hádeginu fór ég á skriðsundæfingu með þríþrautarklúbbi sem er nýstofnaður, með kennara og alles. Það var fínt - æfðum meðal annars að fara í kollhnís (vtil að æfa snúning) og ég er enn hálf-ringlaður.....

þriðjudagur, 28. september 2004

bretti

Smellti mér í Laugar í dag og hljóp á bretti. Byrjaði á 3km upphitun og tók síðan 4km á 3.40 (tempóhraði) + 1km á 3.55 (sem var milli 3-4km) + niðurskokk í 2km. Á eftir hlaupum voru það maga- og bakæfingar. Fín æfing fyrir þreyttan hlaupara. Styttri æfing en venjulegar þriðjudagsæfingar og öllum sprettum sleppt enda engin ástæða til að þreyta sig nú þegar 19 dagar eru í maraþonið.

mánudagur, 27. september 2004

elliðarárdalur

Þar sem það eru nú þrjár vikur í Amsterdammaraþon ákvað ég að hætta að hlaupa á morgnana (brýt það örugglega á miðvikudaginn). Ekki nóg með það þá ákvað ég líka að hlaupa einu sinni í stað tvisvar sem ég hef gert síðastliðnar 5 vikur. En nú er komið að því að draga aðeins úr álaginu og eftir þessa viku verða tvær rólegar vikur fram að maraþoninu. Ég ætlaði að hlaupa 9-11km en veðrið var svo gott að ég hljóp úr Laugardalnum og upp í Elliðarárdal - það var bara ekki hægt að stytta neina hringi vegna veðurs og km urðu 15. Ég hljóp af stað með Örvari og Jóa Gylfa og við Jói hlupum saman alla leið en Örvar snéri við stífluna. Formið var bara gott og maður gleymir sér auðvitað alveg á svona hlaupum en ég er ekki frá því að löppin sé að verða betri með hverjum deginum.

sunnudagur, 26. september 2004

sunnudagsrólegheit

Í dag var stefnan að taka rólegt hlaup og það gekk eftir. Þegar kom að heimsókn til tengdó ákvað ég að hlaupa upp eftir til hennar sem eru ca 11km. Sem betur fer var vindurinn í bakið alla leiðina, mátti ekki við miklum mótbyr eftir langa laugardagshlaupið. Fann dálítið til í lærinu svona til að byrja með en svo var ég bara nokkuð góður. Vikan endaði í 96km og er það töluvert minna en ég áætlaði. Ástæðan er sú að ég ákvað að hvíla mig frá miðvikudagsmorgni og fram að laugardagshlaupinu vegna eymsla í læri. Held að það hafi borgað sig....

laugardagur, 25. september 2004

langur laugardagur

Á laugardaginn var lengsta hlaupið í maraþonundirbúningnum planað. Stefnan var að hittast við sundlaugina í Kópavogi og hlaupa inn í Heiðmörk, út og suður, upp og niður, samtals 34km. Svo rann upp laugardagurinn en veðrið ekki beint gott fyrir langt hlaup. Ákveðið var að bíða með hlaupið fram yfir hádegi eða fram á sunnudag. Ég var búinn að gefa upp alla von sætti mig við að taka létta æfingu í Laugum og fara svo í langa hlaupið á sunnudeginum sem var svo sem allt í góðu. Nema hvað, að Þorlákur fékk þá grillu í hausinn að hlaupa 34km á bretti! Sagðist ætla að prófa að hlaupa í klukkutíma og sjá svo til - held að hann hafi ekki náð að plata hvorki sig né mig því við vorum mættir með ótalbrúsa nokkur pör af skóm og föt til skiptanna...... Síðan var hlaupið - fyrst rólega á ca 4.30 tempói í 16km og svo aðeins bætt í og næstu 15km hlaupnir á 3.55km (þægilegt nú gat hver hlaupið á sínum hraða). Í lokin voru svo tekið 3km niðurskokk. Ferlega skrítið að koma í ræktina kl. 13, ná að horfa á heilan fótboltaleik (því miður tapaði mitt lið FH fyrir liði norðan úr landi), og vera á fullu spani til að verða 16..... En ég slapp nokkuð óskaddaður frá þessari þrekraun fyrir utan litlar blöðrur á fótum og auðvitað þreyttum löppum. Var smá smeykur fyrir hlaupið vegna þess að lærið var búið að vera slappt í vikunni en gott nudd hjá honum Guðbrandi í Laugardalnum gerði mér heldur betur gott.