miðvikudagur, 26. apríl 2006

Hamborg 2006

Eftir morgunhlaup fimmtudagsins byrjaði karbóldið. Ég ákvað að byrja á Leppin hleðsludrykknum og af e-m ástæðum var hann ekki alveg eins slæmur og áður. Kannski vegna þess að ég blandaði beint í brúsa og sötraði jafnt og þétt yfir daginn. Samtals drakk ég 240 gr af carbo (24 skeiðar) í tveimur blöndum. Hver blanda var 12 skeiðar og 750ml af vatni. Fyrst ég er byrjaður að tala um hvað ég lét ofan í mig þá var ég undanfarnar vikur búinn að sleppa öllum sykri, súkkulaði og borðað frekar mikið af laxi, ýsu, kjúklingi, páskalambi ;-) og öðru sem er próteinríkt. Forðast allar mjólkurvörur nema fékk mér einstaka sinnum hreint skyr með sultu án viðbætts sykurs. Pastað sem ég borðaði var annað hvort heilkorna eða spelt og hrísgrjónin með híði og helst mjög villt....

Á föstudagsmorguninn var svo haldið til Hamborgar með viðkomu á Kastrup þar sem slakað var á í smá stund. Borðaðir ávextir og sötraður Leppin kolvetnisdrykkur. Sama prógram og á fimmtudaginn 240gr af hleðsludufti. Var einnig með Organic Food Bar orkustykki sem eru alveg ótrúlega góð og holl orkustykki sem fengu meira að segja stimpil frá Ásgeiri járnkalli. Eftir að hafa tékkað okkur inn á hótelið okkar, sem var frábærlega staðsett, röltum við og náðum okkur í rásnúmerin og skoðuðum hlaupadót. Ég sá þar nýja, fallega, rauða, Asics DS-Racer skó, sem ég féll alveg fyrir. Var sko búinn að sannfæra sjálfan mig um að hlaupa í Trainer-um og að það væri það eina rétta. En eftir að hafa skoðað þessa skó var ekki aftur snúið – mínir skyldu þeir verða. En keypti þá þó ekki – í þetta skiptið ;-). Um kvöldið fórum við Jói, Guðmann og Huld á frábæran japanskan veitingastað (Matsumi) og borðuðum Sushi, Sashimi, núðlusúpur, Tofu og síðast en ekki síst grænt te, sem ég hef ofurtrú á. Eftir matinn var svo haldið á hótel og sofnaði ég eins og ungabarn um leið og ég lagðist á koddann.

Eftir morgunmatinn á laugardaginn var tekinn ca 20mín hlaupatúr með öllum hópnum og hlupum við í fallegum blómagarði sem er við rásmarkið. Eftir hlaupið var gert smá flögu tékk, yfirskin til að kaupa skó, og svo keypti ég mér rauðu, fínu skóna. Keypti mér hálfu númeri stærri skó en venjulega og átti það eftir að vera mikið gæfuspor. Hef alltaf farið illa á löppunum eftir maraþon og skýringin auðvitað einföld – litlir skór. Laugardagurinn fór svo mest í slökun, legið upp í rúmi og lesin bók. Um kvöldið fór hópurinn svo saman á ítalskan veitingastað og fengu sér flestir pasta og áttum við góða stund saman. Ég held að allir hafi farið sáttir út af staðnum, útbelgdir af kolvetnishleðslu dagsins. Á laugardaginn hlóð ég með EAS hleðslunni, þ.e. fram að kvöldmat. Eftir alla þessa hleðslu voru margir komnir með hausverk og flestir alveg búnir að fá nóg af öllu kolvetnisátinu. Svo var farið snemma á hótelið, aðeins stoppað á barnum og drukkið grænt te J. Mér gekk ekkert sérstaklega vel að sofna, stressaðist aðeins upp við að máta gallann og næla rásnúmerið í bolinn. Vaknaði rétt fyrir 0600 á sunnudagsmorgun og stutt í hlaupið..... Morgunverður: 2 brauðsneiðar með banana, smá grænt te, Organic Food Bar – Vegan orkustykki, ca 400ml af hleðsludrykk og svo 500ml af Leppin orkudrykk. Nestið í hlaupinu var 500ml flaska af Leppin orkudrykk (sötraði af henni fram að hlaupi) og 4stk GU gel. Teipaði á mér hæla og táberg, klæddi mig í galla og var tilbúinn í slaginn. Hópurinn hittist svo fyrir framan hótelið kl. 0800 og löbbuðum við saman uppeftir og allir í góðum fíling. Aðstæður voru frábærar fyrir hlaupið, hægt að skipta um föt inni og vel gekk að losna við föt og engar biðir eftir neinu og fjarlægðir ekki miklar. Þegar stutt var í hlaupið fundum við klósett með lítilli röð. Svo sem ástæða fyrir því - vorum stödd í hjólastólastartinu....

Nú var þetta að verða spennandi og stutt í start. Jói, Guðmann, Valur, Martha og ég vorum í starti B - nánast í fremstu víglínu. Síðustu mínúturnar var stemmningslagið e-r undarlegur þýskur slagari. Svo PÆNG og allir fóru af stað. Hitastig var ca 8°C og nánast logn. Við hlupum 4 saman út úr hliðinu og fylgdumst að fyrri hluta hlaupsins. Það var alveg meiriháttar þægilegt. Fundum taktinn okkar fljótlega nema hvað fyrsti kílómetrinn var frekar hægur og undruðumst við á því hvað margir höfðu komist fram úr okkur í upphafi. Fyrstu kílómetrarnir voru voða þægilegir og ótrúlegur styrkur að hlaupa með þessum frækna hópi. Ég hljóp af stað með brúsann minn og hann dugði mér fram yfir fyrstu drykkjarstöð. Þá var ég búinn að sötra 500ml af Leppin orkudrykk síðan kl. 0800.

Leiðin var mjög skemmtileg, mikill stuðningur frá áhorfendur og keppendur vel stemmdir. Fyrri helmingur hlaupsins var frekar áreynslulaus. Ég rúllaði á þægilegum hraða með Íslendingunum, fékk mér að drekka á hverri drykkjastöð vatn og prófaði líka orkudrykkinn sem var mjög fínn. Fyrsta gelið mitt borðaði ég líklega á 10km stöðinni. Eftir rúmlega 10km komum við að höfninni og þá kom í ljós kunnuglegur baksvipur. Þarna var Baldur mættur á fullu spani niður að höfninni. Ég klappaði honum á öxlina og óskaði honum góðs hlaups og svo héldum við áfram á okkar hraða. Mikill stemmning þarna við höfnina, skemmtileg hljómsveit sem kom öllum í gott skap og fullt af áhorfendum sem hvöttu okkur ótrauð áfram.

Svona leið þetta upp í 20km en þá fannst mér e-ð verið að hægjast á félögum mínum og ákvað að bæta örlítið í. Markmið dagsins var nefnilega að klára á 2:45 og nú var ég nokkuð langt frá því. Ég var þó lítið að hugsa um það en eftir hálf maraþon og 1:24:10 var ekki seinna vænna en að bæta í. Þarna var ég byrjaður að tína upp hlaupara sem höfðu farið of hratt af stað. Þá er mikilvægt að horfa fram á veginn og festast ekki í tempói hjá e-m sem er að hlaupa rólega. Stuttu eftir 23km spratt maður út af kamri við hlaupabrautina og fór að hlaupa eins og hann ætti lífið að leysa. Ég elti hann og við skiptumst á að halda tempóinu.



Nú var ég að nálgast 30km markið og ekkert bólaði á þreytu, neikvæðum hugsunum og hvað þá að ég væri að hægja á mér. Þvert á móti varð ég jákvæður, brosandi, hljóp hraðar og kílómetrarnir tikkuðu áreynslulaust. Dálítið öðruvísi en síðustu maraþon þar sem síðustu 10km hafa verið algjört helvíti. Núna bætti ég bara í, hljóp fram úr mönnum alla leiðina og brátt voru 2 kílómetrar eftir. Það var varla að ég trúði þessu. Og enn var ég að hraða á mér. Þegar ég hugsaði um það hafði enginn tekið fram úr mér í hlaupinu og þessi sem spratt út af kamrinum hafði gefið eftir við 37km markið en ég lét það ekki á mig fá og hélt mínu striki. Fékk mér síðasta GU-gelið, Espresso Love með tvöföldum koffein skammti. Nammi Namm. Eftir 40km átti að vera e-r brekka upp á við. Ég varð ekkert var við hana og svo var bara bein braut og uppblásið markið…… Ég gaf í, lyfti höndum klappaði fyrir áhorfendum og fékk mikinn stuðning – Birgir Von Islandus er að koma í markið sagði þýski kynnirinn. Í markinu var ég enn í sæluvímu, ekkert slappur og beið sæll og glaður eftir félögum mínum sem létu sjá sig einn af öðrum….. . Frábært hlaup var búið og tíminn 2:45:37……..



Splitt:

10km 40:22
20km 01:19:26 - 39:05
30km 01:58:22 - 38:56
40km 02:37:03 - 38:41
42.2km 2:45:37




fimmtudagur, 20. apríl 2006

Hamborg nálgast.

Frekar óheppinn á þriðjudaginn eftir frábært og áfallalausan undirbúning. Lenti í því að snúa á mér ökklann í upphitun fyrir síðustu alvöru æfinguna í prógraminu. Í allri óheppninni var ég pínu heppinn. Var beint fyrir framan Þróttarheimilið í Laugardalnum og komst strax í kælingu. Frekar stressandi að lenda í þessu en mér finnst ég vera á góðum batavegi og eftir að hafa hlaupið smá í morgun þá er ég viss um að ökklinn eigi ekki eftir að stoppa mig í Hamborg. Þ.a. ég er vel stemmdur og tilbúinn í slaginn....

Ég var að skoða rásgrúbburnar í Hamborg og sá þá að ég er í rásgrúbbu B, sem er fyrir 2:30-2:45. Kom mér skemmtilega á óvart. Það ættu því ekki að vera margir á undan mér út úr startinu - og vonandi færri á undan mér í mark ;-).

Heimasíða hlaupsins -> http://www.marathon-hamburg.de
Rásnúmeri mitt: 971

mánudagur, 17. apríl 2006

Grótta....

Morgunhlaup út að Gróttu - 9km.

laugardagur, 15. apríl 2006

Laugar

Var mættur á brettið um 8 í morgun. Hljóp í maraþonmúnderingunni með 4 gel í stuttubuxnavösunum. Byrjaði á 6km rólega og síðan hljóp ég 7km á MP og skokkaði að lokum 2km.

föstudagur, 14. apríl 2006

Grótta...

Fór af stað upp úr 0800 í morgun og hljóp norðanvert Nesið út að Gróttu og suðureftir... Bætti við litla hringnum mínum og endaði í 12km hlaupi. Hlaupið byrjaði á laginu Just like Heaven í flutningi Cure og endaði á sama lagi í flutningi Katie - alveg frábært! Frekar napurt veður en hlaupið gekk ágætlega. Hleyp flest hlaup á morgnana núna. Las e-s staðar að með því að hlaupa fyrst á morgnana lærir líkaminn að nota fitu sem orkugjafa. Það vill maður víst í maraþoni....

miðvikudagur, 12. apríl 2006

Morgunskokk.

Hjólaði niður í Laugar og hljóp upp að Árbæjarlaug og til baka. Fann aðeins fyrir sprettum gærdagsins til að byrja með en svo var maður bara fínn....

þriðjudagur, 11. apríl 2006

Sprettir í höllinni...

4km upphitun + 6x(800m, 200m skokk) + 20mín niðurskokk. Sprettirnir voru vaxandi á 2.44-2.33.

mánudagur, 10. apríl 2006

Morgunhlaup.

Vaknaði við fuglasöng og heiðan himinn. Stóðst ekki freistinguna. Smellti mér í galla og hljóp 8km.... Var varla kominn inn þegar fór að rigna - heppinn!

sunnudagur, 9. apríl 2006

Grótta...

Hljóp út að Gróttu í fyrsta skipti síðan ég veit ekki hvenær. Alltaf gott að koma þangað. Rólegt og þægilegt hlaup, samtals 12km.

85km þessa vikuna....

laugardagur, 8. apríl 2006

25K

0900. Hlaupið frá Laugum upp í Elliðarárdal. Eftir 10km var svo skipt um gír og næstu 13km hlaupnir pínu hraðar en maraþon tempó. Endað á 2km rólega. Líðan góð og formið er greinilega nokkuð gott....

fimmtudagur, 6. apríl 2006

Gæðaæfing - Mix-er

Eftir 10 mín upphitun var 4.8km sprettur á MP, 5mín hvíld, 5km á hálfmaraþonhraða, 5mín hvíld, 3km vaxandi; MP-10km hraði. 10 mín niðurskokk.

miðvikudagur, 5. apríl 2006

Rólegt.

10km á bretti.....

þriðjudagur, 4. apríl 2006

Sprettir á bretti

15mín upphitun + 8x(3mín á 17.6+, 0.5%halli ; 2mín jogg) + 15mín niðurskokk.

mánudagur, 3. apríl 2006

Rólegt

7km ról-yndishlaup....

sunnudagur, 2. apríl 2006

Brettið

17km rólega á brettinu og vikan endaði í 130km.

laugardagur, 1. apríl 2006

Síðasta LANGA hlaupið...

Í dag var síðasta langa hlaupið í maraþonundirbúningnum. Hélt af stað úr Vesturbænum kl. 0930 og hljóp með Sigga Þórarins út í Nauthól þar sem við hittum ÍR-inga. Leiðin lá svo í kringum Kársnes, Kópavogsdal, Seljahverfi, Fell og þaðan á stíginn efst í Hólahverfinu sem er mjög skemmtilegur. Fórum af honum við stífluna og svo var klassísk leið heim - Fossvogur og út Ægisíðu í autopilot. Þennan 8km bút keyrði ég á góðum hraða. Annars tók hlaupið ekkert sérstaklega á, held að maður sé orðinn nokkuð sjóaður í þessum löngu hlaupum enda var þetta sjöunda hlaupið yfir 30km á árinu....

Dálítið skrítin tilfinning að vera að klára maraþonprógramm og ekki laust við að maður stressist dálítið upp við að spá í hvort maður sé búinn að gera nóg eða hvort einhverjar lykilæfingar hafi vantað í áætlunina. En, það er örugglega bara eðlilegar áhyggjur og ég held að ég geti verið ánægður með hvernig til hefur tekist við undirbúninginn.

Hérna er smá samantekt.

- Meðalmagn í viku síðustu 13 vikur er 115,3km.

- Hámarskvika 139,5km (vika 11)

- 7 hlaup lengri en 30km, lengsta 37km.

- Tempóhlaup í hverri viku

- 8 intervalæfingar

- 19 millilöng hlaup (20-29km)

- 14 dagar með tveimur æfingum

- 12 frídagar

- Aldrei fallið niður æfing vegna veikinda eða meiðsla :-)

Þá byrjar taper-inn....... En fyrst ein æfing á morgun.