þriðjudagur, 15. apríl 2008

London Maraþon 2008

Dagurinn fyrir hlaupið var rólegur. Byrjaði með að ég, Huld og Sibba heimsóttum Expo-ið sem var rosalega flott. Ég var í engu kaupstuði og keypti ekki neitt. Það var samt gaman að vafra um og skoða hvað var í boði. Fékk meðal annars bæklinga frá Tokyo maraþoni og Comrades ultra hlaupinu og er ég spenntur fyrir þessum hlaupum.

Að Expo heimsókninni lokinni var stefnan tekin á að sjá Neil í heimsmetstilrauninni sinni en hann var þá akkúrat sofandi og fórum við þá á japanskan stað, Ten Ten Tei, og fengum okkur núðlusúpu - alveg frábæra. Eftir þetta voru bara rólegheit og ég lagði mig og las og las. Voða kósí. Við elduðum okkur pasta í kvöldmatinn og eftir matinn röltum við og sáum loks Neil á hlaupabrettinu. Þá var ljóst að Neil og félagar myndu slá heimsmetið sem fólst í því að 12 manna lið hlypi samanlagt í 48 tíma á hlaupabretti, einn í einu. Síðan var farið snemma í háttinn.

Á hlaupadaginn vaknaði ég rétt fyrir 6:00 og byrjaði á að hita te og borða 2 brauðsneiðar með banana. Sötraði líka smá Leppin carbo load með. Fann að ég var virkilega vel upp lagður í átökin sem framundan voru. Stefnan var að hlaupa á undir 2:40. Verðugt markmið sem ég var sannfærður um að ég gæti náð.

Til að komast í startið þarf að taka lest frá Charing Cross sem tekur um 25mín. Við vorum mætt tímanlega og náðum sætum í lestinni, sem var gott því lestinn varð auðvitað pakkfull. Hittum síðan Jóa Gylfa þegar við komum út úr lestinni og röltum upp á startsvæðið. Við vorum í bláa startinu, ég og Jói í hólfi 1 en Huld og Sibba í hólfi 2. Veðrið var frábært og við lögðumst í grasið og slökuðum á fyrir hlaupið. Allir í góðum fíling. Tíminn leið hratt og eftir nokkrar pissferðir var kominn tími á að skila af sér utanyfirfötum og halda á startlínuna. Jói og ég óskuðum stelpunum góðu hlaupi og fórum í hólfið okkar.

Við vorum mættir 20 mín fyrir startið í hólfið og var það mjög tímanlega. Náðum góðum stað. Það er mikilvægt í svona stóru hlaupi að staðsetja sig vel í byrjun til að lenda í sem minnstri "umferð" fyrstu mílurnar. Já, í dag er allt mælt í mílum.

Við vorum sallarólegir á línunni og fyrr en varði var búið að ræsa hlaupið. Ég fór ekkert of æstur af stað en passaði mig þó að hreyfa á mér lappirnar nálægt áætluðum maraþonhraða. Fyrstu 2-3 mílurnar hallaði undan fæti og ég var ekkert stressaður þegar ég sá að eftir 5km var ég á 18:18, enda fer maður víst hraðar niður í móti. Veðrið var gott og ótrúlega þægilegt að láta sig líða með straumnum. Var strax byrjaður að reyna að spotta e-a til að teika. Mér finnst nefnilega muna miklu að finna e-a til að fylgja og sjá um að halda réttum hraða fyrir mig :-) .

Drykkjarstöðvarnar í hlaupinu eru á mílu fresti og er það sérstaklega þægilegt. Maður fær opnar vatnsflöskur, rífur þær til sín og tekur 1-2 sopa og losar sig við afganginn. Ég man ekki alveg hvenær ég fékk mér fyrsta gelið mitt en mig minnir að það hafi verið e-s staðar í kringum 10km. Mílurnar liðu og ég sá að ég var langt undir þeim tíma sem ég stefndi að. Það sló mig ekkert út af laginu enda leið mér mjög vel á þessum hraða (ca 6mín/míla) og fann að ég réð mjög vel við hann. Allt undir control.

Fyrir hlaupið var ég búinn að skipta hlaupinu í þrennt. Fyrsti hlutinn var að hálfa maraþon markinu. Þann hluta kalla ég eiginlega að koma mér að "startlínunni". Mér finnst nefnilega maraþon byrja þarna. Í London er þetta mjög góður punktur á korti af því að þá er maður nýbúinn að hlaupa yfir Tower Bridge. Ég kláraði þennan hluta á 1:18:21. Gaman að bæta hálfmaraþontímann sinn í maraþonhlaupi. Ég hugsaði bara að minn besti hálfmaraþontími væri hvort eð er eldgamall og löngu úreltur.

Leið virkilega vel þarna og nú var kominn tími til að skipta yfir í annan hluta hlaupsins, sem er lykkja sem fer niður í Docklands og endar þegar maður kemur aftur að Tower Bridge, semsagt hluti tvö var byrjaður. Fljótlega í öðrum hluta byrjaði svakaleg rigning og þá var ég í frekar þröngum götum þar sem háar byggingar voru allt um kring. Einnig fannst mér rokið e-n veginn magnast þarna og auðvitað var það alltaf framan á mann. Ég reyndi að láta þetta ekki hafa áhrif á mig, hugsaði að fyrst rokið væri nú í andlitið þá hlyti ég að fá það í bakið síðar. Sá tími kom reyndar ekki. Mér létti mikið þegar rigningin hætti og þá var ég eiginlega kominn í lokafasann.

Nú átti ég næstum því bara eftir að hlaupa beint strik frá Tower Bridge og niður að Buckingham Palace og í markið. Ég hafði verið heppinn með ferðafélaga. Það var alltaf e-r sem hljóp með mér í e-n tíma. Ég passaði mig að vera vakandi fyrir hraðabreytingum og leið og ég fann að "félagarnir" gáfu eftir þá skyldi ég þá eftir í "reyk" og upgrade-aði félagsskapinn. Svona gekk þetta allt hlaupið og það var ekki fyrr en 2 síðustu mílurnar að ég "leyfði" einum félaga sem ég man ekki lengur hvað heitir að fjarlægjast mig. Þarna sá ég að ég myndi vera vel innan við 2:40 og fann að lærin voru orðin dálítið aum. Hægði aðeins ferðina á mílu 25 til að vera viss um að ég kæmist örugglega áfallalaust síðustu sporin. Svo sá ég höllina og jók þá aðeins ferðina og endaði með góðu skeiði í markið á nýju persónulegu meti og vægast sagt ánægður með árangurinn. Fór langt fram úr væntingum.

Það var líka alveg frábært að taka á móti félögunum í markinu, Jóa á glæsilegu persónulegu meti, Sibbu sem vann sinn flokk í London og Huld sem bætti sig um nokkrar sekúndur. Þrátt fyrir góðan dag þá er ég viss um að við eigum öll eftir að bæta okkur!

London Maraþon er eflaust eitt allra flottasta hlaup sem hægt er að taka þátt í. Stuðningurinn í brautinni er ótrúlegur. Brautin er hröð en þó er ég á því að bæði Chicago og Berlín séu hraðari brautir. London brautin er bugðótt og meira af hæðum. Held að lærin á mér hafi aðeins liðið fyrir brautina. Drykkjarstöðvarnar í London eru betri en í Berlín og Chicago.

Mílu splitt:

6:13 - 5:46 - 5:36 - 6:01 - 5:49 - 6:08 - 6:00 - 5:57 - 6:02 - 6:02 - 5:57 - 6:04 - 5:59 - 6:00 - 11:56 - 6:03 - 6:05 - 12:10 - 6:09 - 6:04 - 6:04 - 6:00 - 6:24 - 7:32 (1,2mílur)


5 km 0:18:18
10 km 0:36:52
15 km 0:55:34
20 km 1:14:17
half 1:18:21
25 km 1:32:49
30 km 1:51:45
35 km 2:10:40
40 km 2:29:45
finish 2:38:10

Position (overall) 154
Position (gender) 154
Position (age group) 38
Finish time 2:38:10