Brautin. 5x1200m með 2mín hvíld á milli voru á planinu í dag. Tímarnir - 4:12, 4:07, 4:10, 4:11, og svo hætti ég eftir 1000m á 3:35. Þokkalega sáttur við formið í dag. Tók æfinguna einn sem er pínu erfiðara og alveg frábært að vera á brautinni í 16 stiga hita og sól.
Ég er búinn að vera að velta fyrir mér gildi áfangaspretta í maraþonundirbúningi. Áfangasprettur kalla ég 400-1600m spretti á ca 5km keppnishraða þar sem hvíldin er ca helmingur af hlaupatíma, . Mín skoðun er sú að það sé alveg nóg að taka ca 4 vikur af áfangasprettum í upphafi maraþonundirbúnings til að koma VO2 kerfinu í sem best stand. Eftir það er ekki mikill ávinningur af sprettæfingum þar sem ég tek ekki miklum framförum eftir þennan tíma. Sömuleiðis taka þær meira úr mér en bæði millilöng hlaup og tempóhlaup sem að mínu mati eru mikilvægari í maraþonundirbúningi. Eftir 4 vikur tel ég því vera rétt að sleppa áfangasprettum og leggja meiri áherslu á millilangar æfingar og tempóhlaup. Aðra hverja viku er svo hægt að taka inn áfanga á 10km keppnishraða með stuttum hvíldum.
Tempóhlaup, ca hálfmaraþonhraði, finnst mér ekki eigi að brjóta upp í áfanga sem eru styttri en 12-15mín. Það byggir upp 'staminu' að hafa tempóin löng og krefjandi sem maður þarf virkilega á að halda í maraþonhlaupum. Með því að taka stutt tempóhlaup, t.d. 1km og stoppa, þrátt fyrir að stoppið sé stutt, þá finnst mér það eyðileggja sálræna þátt æfingarinnar. Því auðvitað er alltaf auðvelt að hlaupa 1-2km á tempóhraða þegar maður veit af 1-2mín stoppi. Það er lítið af svona stoppum í maraþonhlaupum og því óþarfi að setja þau inn í tempóhlaupin að óþörfu. Ég er ánægður þegar ég get tekið 35-40mín samfelda tempóæfingu. Já, og svo er auðvitað hálf maraþonhlaup mjög góður undirbúningur fyrir maraþon.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli