fimmtudagur, 12. apríl 2007

Boston....

Ákvað í dag, eftir að hafa ráðfært mig við sjúkraþjálfarann minn, að hlaupa ekki á mánudaginn í Boston Maraþoninu. Erfið ákvörðun en því miður það skynsamlegasta í stöðunni.

Ég er á batavegi en með því að fara í hlaupið er mikil hætta á að ég fari aftur á byrjunarreit með meiðslin mín. Í staðinn get ég haldið áfram að byggja mig upp eftir meiðslin.

Það hefur komið í ljós að hægri löppin er líka hættulega stödd og ekki langt í að hún hefði farið sömu leið og sú vinstri.

Næstu vikurnar held ég áfram í sjúkraþjálfun, sundhlaupum, styrktaræfingum og með tímanum mun ég geta aukið alvöru hlaup smátt og smátt. Stefni að því að vera kominn í 80% álag í lok maí.

mánudagur, 9. apríl 2007

Flugvallarhringur!

Hljóp í kringum flugvöllinn áðan - og fann ekkert til - jibbí jei!!!
Mjög pósitíft test fyrir Boston maraþonið. Aldrei að vita nema að ég geti skrölt með.

Hef ekkert getað hlaupið síðustu vikur vegna hásinarareymsla en verið duglegur að æfa "sundhlaup" í innilauginni í Laugardal. Líklega besta æfingin þegar maður getur ekki hlaupið. Hægt að taka löng hlaup, tempó og áfangaæfingar. Þ.a. ég held að ég hafi náð að halda mér ágætlega við í þessum meiðslum mínum. Svo hef ég verið svo heppinn að komast í spinning tíma hjá Jens og þar fær maður líka að puða pínulítið..... ;-).

Eftir æfingu dagsins er ég semsagt bara þokkalega bjartsýnn og stefni á að mæta á ráslínuna í Boston eftir 7 daga!