Ég hljóp 97,4 km í þessari viku sem er auðvitað alveg bannað. Spurning hvort ég eigi að fara út og hlaupa 4km í viðbót til að ná 100km viku?
Annars hefur þessi vika verið fín. Hef hlaupið á hverjum degi og tvisvar á fimmtudaginn. Aðeins farinn að auka hraðann en ætla ekkert að vera að pressa mig í einhverjum hraðaæfingum á næstunni.
Rifjaði upp tvö trikk sem ég hef notað í maraþonhlaupum. Það fyrsta er einfalt - mæta með morgunmat með sér í hlaupið. Þrátt fyrir að borða jafn ómerkilegan morgunmat og brauð með banana þá finnst mér algjört lykilatriði að flytja banana milli landa og samlokubrauð til að þurfa ekkert að stressa mig á því hverskonar brauð (og banana) ég finn á áfangastað. Alltaf best að útiloka sem mest "óvænta" atburði. Hitt sem ég rifjaði upp er dálítið væmið en hefur virkað svakalega vel á mig. Las í runnersworld dálk eftir konu, Kirsten Armstrong, sem á ameríska vísu skipti maraþoni upp á milli ástvina og fólks sem henni fannst ástæða til að biðja fyrir. Mér fannst þetta ekki svo vitlaus hugmynd og hef notað hana í maraþonhlaupum á minn hátt. Í stað þess að biðja fyrir fólki þá hef hugsað e-ð fallegt til þeirra sem standa mér næst. Rifjað upp góða tíma og yljað mér við minningar. Þegar maður er kominn vel inn í maraþonhlaup og endorfínið streymir um kroppinn magnast allar tilfinningar og hlaupið verður miklu auðveldara í þessum hugarheimi. Frábær og jákvæð íhugun sem skilar sér. Mæli með þessu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli