sunnudagur, 22. október 2006

CHICAGO MARATHON 2006

Birkir og ég komum til Chicago á föstudagskvöldi og "lentum" þá í því að herbergin voru öll upptekin. Við vorum því settir í risastórt herbergi á efstu hæð þar sem búið var að koma fyrir rúmum. Fengum líka herbergið á spottprís og morgunverð í kaupbæti. Ekki slæmt. Fínasta herbergi þar sem við gátum breytt vel úr okkur.

Morguninn eftir fórum við á Expo-ið, sem var innangengt á frá hótelinu. Á Expo-inu hittum við Khalid Khannouchi, fyrrverandi heimsmethafa í maraþoni, sem var auðvitað alveg meiriháttar. Borðuðum pasta máltíð dagsins um miðjan daginn á góðum ítalskum stað í miðbæ Chicago. Frábær máltíð og síðan fórum við niður á hótel í slökun.

Hlaupið

Við vöknuðum um kl. 04 eftir 7-8 tíma svefn. Hlaupið er ræst kl. 08 sem hentar vel fyrir okkur, því þá er kl. 13 á Íslandi. Voða gott. Byrjaði daginn á carbo lód blöndu. Í morgunmat var orkubrauð með banana, vatn og Vegan Organic Food orkubar. Sötraði síðan Leppin íþróttadrykk fram að hlaupi. Kominn með fasta rútínu í mat og drykk sem virkar vel fyrir mig.

Klæddi mig í hlaupagallann, ákvað að hlaupa með húfu og vettlinga en samt í stuttbuxum og stuttermabol. Fór síðan í fullt af druslufötum sem ég ætlaði að henda á startlínunni. Veitti ekki af að klæða sig vel þar sem það var kalt (4°C) og vindur. Ekki beint góðar veðurhorfur en ekki breytir maður því. Og eflaust er betra að hafa frekar kalt en of heitt.

Strætó stoppaði beint fyrir utan hótelið okkar og keyrði fullan vagn af hlaupurum að startsvæðinu. Við höfðum keypt okkur inn í Trophy Tent, sem er lúxus tjald með fatageymsluaðstöðu, kömrum, mat og drykkjarföngum. Mjög þægilegt, sérstaklega vegna kuldans. Við vorum komnir í starthólfið okkar, Competitive, þegar 20mín voru í ræsingu. Þá er því hólfi lokað og engum hleypt inn. Komum okkur vel fyrir framarlega í ráshólfinu, settumst niður og slöppuðum af. Verst að það var ekki hægt að pissa meira og ég var dálítið í spreng þegar hlaupið byrjaði. Þegar 10mín voru í ræsingu hentum við af okkur fötunum og hristum aðeins lappirnar. Engin upphitun hjá okkur en mér finnst það líka algjör óþarfi. Fínt að nota fyrstu míluna í að hita sig upp og finna taktinn.

Ég var ótrúlega rólegur fram að ræsingu, ekkert stress, og svo skall skotið af og hlaupið hófst. Það tók 10 sek að komast yfir startlínuna og byrjað að hlaupa eftir breiðri götu og engin þrengsli. Hljóp varlega af stað, fyrsta mílan á 6:41. Það stressað mig ekkert en eftir þetta komst ég á mitt tempó sem var í kringum 6:11. Mílurnar liðu hratt, fann mér alltaf e-a til að fylgja. Mér finnst það voðalega þægilegt að láta aðra um að halda uppi hraðanum. Er samt vel á verði yfir því á hvaða hraða hóparnir voru sem ég hengdi mig á. Náði mér í glös á drykkjarstöðvum og drakk einn, tvo sopa á hverri og var alveg pollrólegur. Svona liðu mílurnar alveg upp í 10mílur. Naut þess að hlaupa með fullt af góðum hlaupurum og upplifði stemmninguna í brautinni mjög vel. Eftir 10 mílur byrjaði aðeins að teygjast á hópnum. Ég fór örlítið hraðar yfir á 10-14mílu og pikkaði upp hlaupara. Þrátt fyrir að mér liði vel þá passaði ég mig á að vera aldrei að pressa hraðann, aðeins að hlaupa þannig að mér liði vel án þess þó að gefa neitt eftir. Ég fór í gegnum hálf maraþon merkingu á 1:21:09 sem var alveg samkvæmt plani. Líðan góð og ef e-ð þá var ég aðeins að auka hraðann á þessum kafla.

Eftir 16 mílur gerði ég eldsnöggt pit stopp, tapaði ekki nema 20-25 sek á því. Hlaupið leið ótrúlega hratt fyrir sig og allt í einu var ég kominn yfir 20 mílur og enn leið mér vel. Fór að ná hlaupurum sem höfðu komið á siglingu á mílum 13-15. Ég náði að hengja mig á einn sterkan hlaupara í nokkrar mílur en hann gaf eftir þegar 2-3 mílur voru eftir. Síðustu 3 mílurnar voru upp í vindinn, frekar erfitt á þessum kafla. Verst að ég náði ekki að tengja mig við neina hlaupara. Barðist einn við vindinn. Síðan var ekki nema míla eftir, 1km og loks þegar 800m voru eftir kom snörp, brött brekka og svo bein braut í mark. Ég náði að auka hraðann og sá klukkuna detta yfir 2:43:00 en náði að koma í mark á 2:43:09....

Frábært að koma í markið, röð af fólki tók á móti hlaupurum og dáðust að afrekum okkar. Dálítill munur á þessum þætti í Chicago og t.d. í Berlín. Eftir að ég kom í mark rölti ég í Trophy Tent. Var einn af þeim fyrstu í það og fékk þvílíkt lófatak og allir voðalega ánægðir að sjá mig. Æðislegt. Ég fékk mér heita súpu og tók við heillaskeytum :-). Svo mætti Birkir á svæðið, sáttur og sæll eftir vel heppnað hlaup.


Chicago hlaupið er lang flottasta hlaup sem ég hef tekið þátt í. Aftur til Chicago - ekki spurning!!!

Mílu Splitt: 6:41;6:03;6:11;6:11;6:11;6:24;6:10;6:07;6:12;6:04;6:00;6:04;6:10;6:19;6:36;5:58;6:05;6:11;6:13;6:10;6:11;6:10;6:14;6:18;6:29;7:48

Engin ummæli: