Þá var maður aftur mættur á ráslínuna í amsterdam maraþoninu - nú í góðum félagskap hlaupafélaganna og með fleiri kílómetra í nesti en í fyrra.
Startað var kl. 11 og fór ég frekar rólega af stað. Aðalatriðið í byrjun er að missa sig ekki í of hraðann gír sem er auðvelt þar sem að margir hlaupa út eins og brjálæðir séu. Fyrstu km fóru í að finna rétta hraðann og hlaupafélaga sem væri hægt að hengja sig á. Ég hljóp af stað með brúsa í hendinni sem entist mér 6km. Ágætt að sleppa við fyrstu drykkjarstöðina í hlaupinu því að þar myndast dálítil stappa.
Þegar ég var búinn að hlaupa ca 8km fann ég hlaupara til að teyma mig næstu 10km. Það var voðalega þægilegt, ég var mjög afslappaður og "hvíldi" mig á eftir þessum náunga og hljóp nánast áreynslulaust. Á þessum kafla lá leiðin niður Amstel og meðal annars eftir stíg sem er
e-ð ósléttur (ég tók ekki eftir þessum kafla en fékk smá skammir fyrir að hafa ekki varað menn við). Þarna voru litlir hópar hlaupara sem hlupu saman í smá mótvindi og minn litli hópur hoppaði á milli hópa sem fóru hægar yfir og reynt að fá sem mest skjól af öðrum
hlaupurum. Eftir 17km hitti ég Sigurjón ÍR-ing sem var því miður kominn með slæmar blöðrur undir yljarnar og þurfti að gefa aðeins eftir en hann náði engu að síður að skila sér í mark á fínum tíma.
Eftir 19km hitti ég Norðmann og við áttum eftir að fylgjast að nánast alla leið í markið. Það var ofsalega þægilegt að hafa e-n á sama hraða. Margir hlauparar voru byrjaðir að hægja á sér og á
meðan höluðum við inn helling af hlaupurum. Það var líka ágætt að vera með Norðmanninn nálægt sér, hann var í bol merktum Norway og fékk hellings stuðning út á það. Ég ímyndaði mér bara að ég væri líka Nossari og tók til mín smá af heia-heia hrópunum. Annars er stuðningur frá áhorfendum ekkert sérstaklega mikill í Amsterdam hlaupinu og lítið af fólki er að horfa á eftir 10km og alveg upp í 32km.
Ég var í góðu andlegu- og líkamlegu jafnvægi alveg upp í 33km eða þangað til að við komum að svaka stuðningsgrúbbu. Þar var teknó tónlist og mikill stuðningur. Þá varð ég alveg Sólheimaglaður og spíttist áfram næstu 2km. Á þessum kafla var Kristján mættur upp á eina brúna með myndavél og hvatningu sem virkaði alveg frábærlega á mig.
Nú var maður kominn í miðbæinn og lappirnar farnar að gefa örlítið eftir og missti ég dálítinn hraða. En samt var ég í fínu jafnvægi, engar neikvæðar hugsanir og enn vonaðist ég til að skila mér á það góðum tíma að Sigrún mín sæi mig koma í mark (hún var nefnilega að fara í hálft sem byrjaði kl. 14).
Þegar voru 4km eftir þurfti ég að minna mig á að enn væru nokkrir km eftir og að þá gæti ég slakað á, það hélt mér hlaupandi næstu km. Vissi af drykkjarstöð sem var staðsett kringum 40km markið sem ég var búinn að ákveða að slepp enda staðsetningin ekkert nema tómur
skepnuskapur þar sem stutt er í markið. Ég greip þó engu að síður mandarínu sem ég smakkaði á en maganum leist ekki vel á þetta uppátæki og ég frussaði þessu út úr mér.
Svo birtist hlið sem á stóð að 1km væri eftir, þá tók Norðmaðurinn upp á því að skilja nýja vin sin eftir með svaka spretti. Ég fylgdi honum eftir, þó ekki fast, og brátt birtist leikvangurinn sem var ljúft að hlaupa inn á og sjá fyrir endann á fræbæru hlaupi. Ég skilaði mér í mark á tímanum 2:53.20 og er ég mjög sáttur við það. Ég og Norðmaðurinn óskuðum hvor öðrum til hamingju með frábæran árangur og þar með skildu leiðir okkar. Allt önnur tilfinning að koma í mark í ár, nú labbaði ég beinn og var ekkert að flýta mér að fá mér að drekka og var bara brattur.
Fast á hæla mína kom svo Rúnar sem náði alveg meiriháttar árangri í sínu fyrsta maraþoni, 2:54:27. Í markinu hittum við svo Þorlák sem náði besta tíma Íslendings í ár, 2:43:15, sem kórónar enn eitt bætingarárið hjá honum.
Nú tók við þrautarganga yfir í Sporthallen þar sem maður hefur fataskipti. Það hafðist á endanum og skellti ég mér í nudd. Eftir að hafa kynnt mig fyrir nuddaranum, sem var eldri kona, sagði hún mér að hún hafði líka nuddað mig í fyrra! Skemmtileg tilviljun en maður spyr sig hvort maður sé búinn að hlaupa of oft í Amsterdam hlaupinu?
Varðandi drykki þá fékk ég mér orkugel og vatnglas við 10km, 15km og 20km drykkjarstöðvarnar og eftir það drakk ég Gatorade á hverri drykkjarstöð. Stoppaði alltaf meðan ég drakk, eitt til tvö glös, sem var sterkur leikur. Þá var öruggt að drykkirnir fóru ofan í maga og
ég fékk nóg af vökva. Mér fannst ég vera vel vökvaður alla leið í markið.
Annars náðust mjög fínir tímar í hlaupinu hjá Íslendingunum. Líklega er besti árangurinn hjá Elísabetu Sólbergsdóttur TKS sem varð í 5. sæti í sínum aldursflokki, V45, á tímanum 3:14:54. Frábært hjá henni!
Millitímarnir mínir:
5 kilometer 20:20
10 kilometer 39:52
15 kilometer 59:51
20 kilometer 1:19:49
Halve marathon 1:24:45
25 kilometer 1:40:04
30 kilometer 2:00:10
35 kilometer 2:21:04
40 kilometer 2:43:30
Net time 2:53:20
Engin ummæli:
Skrifa ummæli