laugardagur, 2. október 2004

síðasta langa æfingin fyrir Amsterdam

Jæja, þá er æfingaplaninu fyrir Amsterdamhlaupið lokið og taka nú við tvær (mjög mikilvægar) vikur þar sem km verða í lágmarki. Í næstu viku stefni ég á sprettæfingu á þriðjudaginn og síðan á maraþonpace hlaup á fimmtudag eða að taka þá æfingu í Geðhlaupinu næsta laugardag.

Ekki laust við að maður sé dálítið á nálum yfir því hvort maður hafi farið nógu marga kílómetra, hlaupið nóg mörg löng hlaup og svo framvegis. En það er þó óhætt að segja að hlaupaæfingar hafi almennt gengið vel og meðalvika síðan í maí er líklega í kringum 90km. Nánast hver vika hefur innihaldið þrjár lykilæfingar; spretti, tempó og eitt lengra hlaup. Aðrar æfingar hafa verið rólegar. Það er líka jákvætt að ég hef bætt tímana mína í öllum vegalengdum (og nánast í hverju hlaupi) og nú er komið að maraþoninu! Þ.a. ég er frekar bjartsýnn á gott gengi en er auðvitað ekki búinn að gleyma hvernig fór fyrir mér í fyrra þegar ég hljóp maraþon í Amsterdam - en það var nú fyrsta hlaupaárið mitt og þá var grunnurinn ekkert sérstakur.

Nokkrir LHF-félagar sem stefnum á Amsterdam ákváðum að heimsækja ÍR-skokk á laugardagsæfingunni, en þau hlaupa frá Breiðholtslaug kl. 0930. Það er mjög góð stemmning í hlaupahópnum hjá ÍR-skokk og var sérstaklega gaman að leggja af stað í hópi með yfir 40 hlaupurum. Þar sem þetta er breiður hópur með mismunandi markmið þá skiptist hópurinn upp í hóp sem ætlaði stóra Heiðmerkurhringinn (30km) og hinir fóru stígahringinn í Heiðmörk (22km).

Hlaupið gekk mjög vel og eftir 12km rólegt hlaup og komnir fram hjá lundunum í Heiðmörkinni. Ná tóku við brekkurnar sem síðast voru hlaupnar í roki og rigningu. Þá urðu brekkurnar óendanlega langar en núna vissi maður ekki af sér fyrr en við vorum komnir aftur inn að stígunum í Heiðmörkinni. Við hlupum brekkurnar frekar greitt og púlsinn fór alveg upp í 180 en maður var í góðum gír og allt í góðu standi. Hringurinn var kláraður og þar með síðasta erfiða æfingin. Nú er það bara að bíða rólegur og gera ekkert heimskulegt á síðustu vikunum fyrir Amsterdam....

Engin ummæli: