Nú eru ekki nema 5 dagar í Maraþonið og æfing dagsins tók mið að því. Samkvæmt flestum prógrömmum sem ég hef lesið þá er ein létt hraðaæfing inni í síðustu vikunni. Hún var semsagt í dag hjá mér. Ég hitaði upp með því að hlaupa niður í Laugar úr vinnunni og tók 4 * 4 mín tempó spretti á bretti. Fyrsti spretturinn var á 3.55 en næstu þrír á 3.45. Eftir þetta gerði ég nokkrar maga- og bakæfingar og teygði vel á eftir. Síðan hljóp ég aftur upp í vinnu. Hljóp um 7km í dag sem er ágætt. Finn nú alltaf smá til í hægra læri, það hefur þó ekki háð mér þegar ég hleyp, vonandi mun það ekki há mér á sunnudaginn þegar líður á hlaupið. Ég get til dæmis lítið teygt á lærinu þ.a. ég sleppi því bara.
Hvíld á morgun....
Kannski fer ég í nudd, ekki alveg búinn að ákveða mig með það.
Til að rifja upp stemmninguna í Amsterdam hlaupinu þá kíkti ég á myndaseríu og hér er ein mynd úr henni. Þarna er ég og enskur hlaupafélagi á fullu spani í Amsterdam hlaupinu í fyrra. Við hlupum saman fyrstu 30km en svo dró í sundur - þeim enska í hag.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli