fimmtudagur, 28. október 2004

resurrection

Jæja, þá er hvíldartíminn eftir Amsterdamhlaupið að verða búinn. Ég hef semsagt hvílt mig algjörlega frá hlaupum núna í 10 daga sem er algjört met! En ég hef auðvitað ekki verið með lappirnar uppi í lofti allan þennan tíma heldur er ég aðeins byrjaður að lyfta lóðum og sjálfum mér í Laugum. Stefni á að taka tvær lyftingaæfingar í viku - frekar strangar og keyra í gegnum lykilæfingar fyrir allan líkamann á ca 45mín. Ég legg auðvitað áherslu á lappirnar en finn (og sé) að mér veitir ekki af því að styrkja efri skrokkinn dálítið. Næstu vikur og mánuðir verða því nýttir í styrkingarprógramm. Með þessu ætla ég svo að hlaupa 4 sinnum í viku - bæði á bretti og úti.

Er mikið að velta fyrir mér hvernig maður eigi að byggja upp æfingar í vetur. Hef ákveðið að skipta vetrinum niður í tímabil og fyrsta tímabilið verður helgað brekkusprettum til að styrkja lappirnar sem vonandi hjálpar til við að bæta hraðann. Maður stefni jú á bætingar á næsta ári og auðvitað ætla ég að gera það sem þarf til þess að það gangi eftir. Ætli þetta brekkuspretta-styrkingar tímabil verði ekki 6-8 vikur eða til Jóladags. Reikna ekki með að hlaupa meira en 50-55km í viku en með lyftingunum þá held ég að ég þoli ekki meiri hlaup. Svo verða hlaup væntanlega aukin á nýju ári...

Í næstu viku byrjar semsagt nýtt hlaupatímabil hjá mér - gaman að því....

Annars var svo gaman í Amsterdamhlaupinu að ég hef verið að spá í hvort ég ætti að skella mér í maraþon í vor og hef verið að horfa til Parísar maraþonsins sem er 10. apríl. Félagarnir Ingólfur og Ívar fóru þangað í fyrra og mig minnir að þeir hafi verið alveg í skýjunum með allt sem snéri að hlaupinu. En líklega er skynsamlegra fyrir líkama og sál að sitja á sér til haustsins með maraþonhlaup - ætla ekki allir til Berlínar í tribute hlaup til heiðurs 20 ára afmælis Íslandsmets Sigurðar P. í maraþoni?

En svona til að halda mér rólegum þá væri ég til í að halda opnu að fara í hálfmaraþon í mars í París - lítur út fyrir að vera mjög flott hlaup með 20. þúsund froskaætum. Ég er viss um að það sé hægt að fá e-a í Parísarferð næsta vor ;-) .


Engin ummæli: