laugardagur, 5. febrúar 2005

nýtt hlaupaár.....

Þá er að komast ákveðið "jafnvægi" í hlaupaæfingarnar. Magnið er að nálgast 80km á viku með þremur gæðaæfingum á viku + hæfilega langt hlaup á laugardögum. Á mánudögum eru langir sprettir (1000-3000) og á miðvikudögum eru styttri sprettir (200-800). Á fimmtudögum eða föstudögum er svo tempó eða vaxandi hlaup á dagskrá. Sprettæfingarnar eru enn teknar á bretti í Laugum en lengri hlaupin og rólegu millihlaupin (þri/sun) reyni ég að taka utandyra.

Mikið er spáð og spekúlerað í æfingaplönum, markmiðum og hvort eða hvaða maraþon maður eigi að skella sér í. Aldrei að vita nema maður sleppi maraþoni í ár en skelli sér þess í stað til Boston 2006. Þó getur allt breyst á einni nóttu, mikill áhugi hjá Símahlaupurum að fara til Berlínar í haust og auðvitað væri það alveg meiriháttar gaman....

Annars var æfing dagsins ágæt. Ég og Sigrún skelltum okkur upp í Breiðholt og hlupum með ÍR-skokki sem er alveg frábær hópur. Verra var að við höfðum ekkert spáð í veðrinu og okkur brá dálítið þegar við sáum hitamæli á leiðinni sem sýndi -8°C. Við vorum ekki alveg útbúin fyrir svoleiðis kulda en hlupum samt af stað með loppna fingur. Hlaupaleiðin var: Breiðholt - Laugardalur - Sæbraut - Hofsvallagata - Ægisíða - Fossvogur - Breiðholtslaug, líklega um 24km, sem er lengsta æfing ársins hingað til.

Engin ummæli: