mánudagur, 28. mars 2005

Köben um páskana.

Var í Köben um páskana og nýtti tækifærið og hljóp tvisvar sinnum 10-11km hring frá Solbakken og kringum Söerne. Það var mjög gaman og góð tilbreyting, mikið af hlaupurum á ferli. Fór í fyrra skiptið með Sigrúnu og í seinna skiptið einn með sjálfum mér. Það var dálítið kalt í Köben en ég lét það vera að væla yfir því, sérstaklega eftir að ég náði í bók í íbúðinni sem við vorum með í láni. Bókin var um Norðurheimskautsför Haraldar Ólafssonar og er óhætt að segja að maður getur lítið kvartað og kveinað yfir hlaupunum sínum miðað við hvað hann hefur gengið í gegnum á ferðalögum sínum, hvað þá kulda.....

Aðal hlaup ferðarinnar var á Páskadag. Ég heimsótti Sparta klúbbinn sem er með uppbyggingarhlaup fyrir Kaupmannahafnarmaraþon á hverjum sunnudegi milli nóvembers og maí. Frábært framtak og alveg meiriháttar að geta mætt með fleiri hundruð manns og hlaupið langa hlaup vikunnar. Reyndar byrjaði dagurinn á 10km hjólreiðum upp að Parken þar sem Sparta er, það var mjög kalt úti en þá hugsaði með mér að þetta væri nú ekkert miðað við á Norðurpólnum og létt mig hafa það að vera með loppna fingur og kaldar tær. En svo komst ég á áfangastað. Ég var varla mættur þegar e-r kallar e-d óskiljanlegt á dönsku og hlaupalegasta fólkið tekur kipp og hleypur út af leikvanginum - ég þori ekki öðru en að hlaupa með. Þessi hópur, 20 manns, hleypur langa hlaupið á 4.10-4.30 og hafði ég nú fyrirfram verið búinn að ákveða að hlaupa í e-u öðru holli en nú var ég kominn af stað og ekki aftur snúið..... Mig grunaði hvaða leið var fyrir valinu hjá forystusauðunum. Stefnan var tekinn upp að Klampenborg og var meiriháttar að hlaupa hjá Charlottenlund Söbad og eftir Strandvejen sem höfðu verið mínir aðal hlaupastígar meðan ég dvaldi í Danaveldi. Svo komum við að Klampenborg og maður sá yfir Bellevue ströndina, ekkert sérstakt strandveður, Norð-Austan vindur og kalt í veðri, en ótrúlega þægilegt hlaup. Maður faldi sig bara inni í miðjum hópi og liðaði létt með. Næsti leggur var svo í Dyrehaven sem er minn uppáhaldshlaupastaður í Danmörku. Hlaupið var upp að Slottinu og síðan hringinn hjá Rödövre og niður í Fortunen. Alveg æðislegt og akkúrat mín óskahlaupleið. Þegar við komum að Fortunen var svo haldið niður í Gentofte og e-r lykkjur hlaupnar sem ég þekki ekki og allt í einu var svo hópurinn kominn aftur á upphafsreit eftir 30km hlaup. Ég var nú eiginlega bara hissa hvað hlaupið var létt.....

Engin ummæli: