Vaknaði snemma og fékk mér brauð með banana og vatnsglas. Fékk mér líka 500ml af EAS karbólódi og blandaði jafnmikið af Leppin íþróttadrykk til að sötra fram að hlaupi. Sama rútína og fyrir maraþonhlaup. Síðan er klassískt að kíkja út á Ægisíðu og hvetja maraþonhlauparana. Alltaf gaman að sjá þá renna út á Nes og alltaf jafn pirrandi að sjá bíla skjóta sér á eftir þeim og á milli hlaupara. T.d. stóð starfsmaður og stoppaði umferð af Sörlaskjóli sem er ekki beint aðal umferðaræð borgarinnar en enginn var að passa umferðina sem kom frá Hofsvallagötu inn á Ægisíðu. Undarlegt að ekki sé hægt að loka götunum rétt á meðan Reykjvíkurmaraþon er í gangi. Gjörsamlega óþolandi.
Þorlákur og ég vorum á Grenimelnum þangað til 15mín fyrir start og skokkuðum þá niður í rásmark. Mjög góð stemning í rásmarkinu að vanda og við í Gruðbandssveitinni fylgdumst út og æstum okkur ekkert þrátt fyrir að margir hlypu hraðar en við út úr startinu. Héldum hópinn út á Nes en við Norðurströndina misstum við aðeins contact. Þarna kom í ljós að skipulagið var ekki alveg að gera sig. Hægfara 10km fylltu götur og stíga og þurftu hálfmaraþonhlauparar að sikk sakka eftir allri Norðurströndinni svo ekki sé minnst að risa olíubíl hafi verið hleypt inn á Hringtorgið í Ánanaustum sem nánast blokkeraði hlaupaleiðina. Þegar 10km hlaupararnir beygðu inn í Tryggvagötuna var ég samhliða Spánverja og við áttum eftir að hlaupa saman mikinn hluta leiðarinnar. Tempóið í sikk sakkinu var ekkert sérstakt og ekki átti það eftir að batna í mótvindunum á Sæbrautinni. Við Spánverjinn skiptumst á að taka vindinn og sáum Steinar svona 200m á undan okkur. Það hefur eflaust verið erfitt fyrir hann að berjast einn við vindinn enda nálguðumst við hann hægt og rólega og á athafnasvæði Eimskips var bilið orðið um 60 metrar. Tempóið í mótvindinum var rólegt og ég fann að ég átti nóg inni. Beið rólegur eftir að fá vindinn í bakið og þá ætlaði ég að skipta um gír. Þegar ég fékk vindinn í bakið var tempóið komið niður í 3.27 mín/km og Spánverjinn gaf ekkert eftir. Steinar hljóp líka hraðar og breyttist bilið ekkert þarna. Það var ekki fyrr en á 20. kílómeter sem Spánverjinn gaf eftir og ég nálgaðist Steinar aðeins en enn var dálítið í hann. Þegar ég kom svo að Lækjargötunni var stórfjölskyldan mætt með mömmu í broddi fylkingar. Mikil hvatning þar og ég gat eiginlega ekki annað en gefið í. Sem betur fer náði ég að fara fram úr Steinari og koma í mark, fyrstur Íslendinga :-) og annar í hlaupinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli