Þar sem veðurútlitið var hálf ömurlegt í gær var ákveðið að færa langa hlaupið yfir á sunnudag. Dálítið erfitt að brjótast úr viðjum vanans en það hefði aldrei verið hægt að skila þessari æfingu vel í roki og rigningu. Sem betur fer rættist spáin og það var alveg fínasta veður. Ég hitti Adda P, Friðleif og Helga í Laugum kl. 12 og stefnan var að taka 6km upphitun, síðan 21km á MP álagi og skokka síðan niður. Æfingin gekk bara vel, skokkuðum inn í Kópavog þar sem við byrjuðum álagskaflann. Hlupum Kópavoginn og Kársnesið og svo út á Nes. Friðleifur og Addi beygðu inn hjá Nauthól og var frábært að fá félagsskap fyrstu 9km. Mér leið vel allan tímann í tempóinu og meðalhraðinn var 3:46 fyrstu 17km. Þá var ég kominn út að Gróttu og mótvindurinn mættur. Ég hinkraði aðeins eftir Helga og við hlupum síðan á móti vindinum síðustu 4km og enduðum við Olís stöðina við Ánanaust. Eftir það skokkuðum við rólega meðfram ströndinni niður í Laugar. Frekar ánægður með æfinguna og ég er ekki frá því að ég sé í svipuðu formi og síðustu 3-4ár þ.a. ef allt gengur upp í Frankfurt er aldrei að vita nema að ég bæti mig :-)
Æfingaáætlunin hefur gengið vel upp. Fullt af fínum æfingum í góðum félagsskap. Ég hef hlaupið að meðaltali 120,31 km/viku síðastliðnar 10 vikur og er bara alveg til í að fara að slaka á næstu tvær vikurnar. Í næstu viku verður magnið ca 70km.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli