laugardagur, 27. ágúst 2005

þrjátíu og sex kílómetrar...

Það hittist stór hópur hjá Laugum kl. 0930 og þar á meðal margir Berlínar- og Ítalíufarar. Mjög skemmtilegt framtak og ætti að gera miklu meira af því að stefna saman hlaupurum úr hlaupahópunum. Þetta var líka alveg sérstaklega góður hlaupadagur, nánast logn og passlegt hitastig, alveg kjörinn fyrir langhlaup. Hlaupaleiðin var einföld; frá Laugum út á Nes og svo Ægisíða, Nauthóll, Fossvogur, Powerade og aftur inn í Laugar dalinn. Það er hægt að stytta þessa leið á marga vegu og nýttu sér margir það, enda ekki allir á sama stað í maraþonundirbúningnum. Við vorum ca 8 sem héldum hópinn að Poweradehringum en svo styttu menn hringinn hjá stíflu og við Laugina en ég og Jói Gylfa hlupum allan hringinn. Þar sem Garmin sýndi ekki nema rétt um 35km þegar við komum á leiðarenda var ákveðið að hlaupa 800m á brautinni til að ná 36km eins og stefnt var að. Mikil seigla það, og ekki síður veitti hlaupið manni mikið sjálfstraust þar sem ótrúlega lítið dró af manni þrátt fyrir að þetta er lengsta hlaup sem ég hef hlaupið, fyrir utan maraþonin tvö og allt á góðri siglingu. Eftir hlaupið hittust síðan Berlínarfarar á Laugakaffi og fóru yfir það ævintýri.

Þessi hlaupavika náði 114km sem er það lengsta sem ég hlaupið á einni viku og mér finnst ég hafa komið nokkuð vel undan henni. Ætli næsta vika verði ekki e-ð svipuð í magni og inn í henni verður Brúarhlaupið sem ég er að hugsa um að keyra dálítið á ef aðstæður og skrokkurinn leyfa.

Engin ummæli: