þriðjudagur, 22. febrúar 2005

Tunglskin og þoka

Ég fór seint af stað í kvöld og hljóp niður að Hólatorgi, Garðastræti niður að Vesturgötu og eftir allri Vesturgötunni út að Olís. Þaðan hljóp ég síðan út að Gróttu. Það var eitt magnaðasta hlaup sem ég hef hlaupið hingað til. Að hlaupa meðfram Seltjörn undir fullu tungli með þokuslæðu yfir öllu var alveg meiriháttar upplifun. Það var enginn á ferli nema ég og mikil kyrrð nema snarkið í sjónum og svo einstaka gargandi gæs. Þegar ég var kominn hjá golfvellinum flaug hópur af álftum yfir sem var einstaklega falleg sjón. Ég staldraði aðeins við þarna enda kominn með í magann sem gerist allt of oft. Það furðulega er að ég fæ oft í magann eftir nákvæmlega 8 km hlaup. Ég náði nú að koma mér í íþróttahúsið út á Nesi og létta aðeins á mér. Síðan hljóp ég niður Ægisíðu, Lynghaga, upp Suðurgötu, beygði inn hjá Hótel Sögu og þaðan beint heim - samtals 12 km.

Engin ummæli: