Óhætt að segja að ég hafi ekki náð mér á strik í dag. Strax á fyrstu metrunum átti ég í mestu vandræðum með að fylgja þeim hóp sem ég er oftast í í upphafi hlaupa og eftir 2km var ég farinn að gefa verulega eftir. En ég skrölti áfram og lappirnar voru bara ekki til í að hlaupa hraðar í dag og hausinn var heldur ekki alveg í sambandi. Mér leið í löppunum eins og ég hefði verið nýstiginn upp úr nuddbekk hjá Guðbrandi og þá er maður ekki líklegur til stórra afreka. Hvað veldur? Það gæti verið að blóðgjöf síðustu viku sé að há mér þar sem það getur tekið 2-3 vikur að ná upp blóðkornum.
En hlaupið sjálft var alveg frábært. Óvenjumikið af góðum hlaupurum og að venju var brautarvarsla og allt sem viðkom framkvæmd hlaupsins skokkhópi Flugleiða til mikils sóma. Pabbi hljóp í því í fyrsta skipti og náði fínum tíma, gaman að sjá þann gamla skeiða í mark og hann endaði í 3.sæti í sínum flokki. Sigrún stóð sig líka frábærlega og stefnir allt í frábært hlaupasumar hjá stórfjölskyldunni.
Þrátt fyrir súrt hlaup fyrir mig þá hef ég fulla trú á æfingaprógrammi síðustu vikna. Ég verð að vera þolinmóður og vonandi verð ég búinn að ná mínu fyrra formi í Neshlaupinu sem er eftir 9 daga.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli