Það voru aldeilis frábærar aðstæður upp á Skaga í dag, sólskin og þokkalega hlýtt. Mín áætlun í dag var að hlaupa jafnt hlaup og helst á tíma sem ég yrði mér ekki til skammar. Mér létti mikið þegar ég sá Guðmann meðal hlaupara og ákvað að hlaupa á hans hraða. Spurði hann fyrir hlaupið um tempó og mér leist vel á planið hans sem var að hlaupa út á 3.45 tempói. Fyrst eru hlaupnir tveir hringir í bænum og var það mjög áreynslulaust hlaup, lítill sem enginn vindur og hitastigið alveg kjörið fyrir hlaup, lofthiti ca 12 gráður. Það kom fljótt í ljós hvað það var gott að hlaupa með Guðmanni, hann hleypur alveg hnífjafnt og fyrsti km var á 3.45, síðan sýndu næsti km e-ð óeðlilegt og þá sagði reynsluboltinn að það væri bara vitlaust mælt - semsagt mjög öruggur á tempóinu sínu. Þegar við vorum búnir með hringina tvo í bænum héldum við út úr bænum á gamla veginum frá Akranesi. Það var mjög skemmtilegur spotti, vindur (hægur) í bakið og sól á móti - alveg frábært. Við vorum á tempóinu okkar og sáum að Valur og Þorlákur voru komnir aðeins fram úr Sveini. Þetta voru km 11-15 í hlaupinu og svo var beygt í átt að Akranesi aftur og kom þá köld gjóla á móti og smá halli. 16km var áberandi hægasti km hlaupsins en svo kom aftur smá rúll niður en alltaf vindur á móti. Það var ekkert gefið eftir hjá okkur og aðeins farið að draga af manni og það hjálpaði ekki að hafa þessa gjólu á móti á þessum hluta leiðarinnar. Við hefðum eflaust getað skiptst á að taka vindinn en gerðum það ekki í þetta skiptið heldur hlupum sperrtir áfram og engin eftirgjöf sjáanleg. Mér leið þarna mjög vel eins og nánast allt hlaupið. Svo kom drykkjarstöð e-s staðar í kringum 19km og þá gaf Guðmann aðeins í og náði dálitlu forskoti sem hann hélt alveg í mark.
Ég skilaði mér í mark á 1:19.53 sem er næst besti tíminn minn í hálfu maraþoni (best í RM 2004) og ég virkilega sáttur eftir hlaupið. Ég hafði staðið mig illa í Flugleiðahlaupinu og Neshlaupinu þ.a. mér fannst alveg meiriháttar að ná svona fínu hlaupi á Akranesi. Ætli ég nái nokkuð öðru hálfu fyrr en í RM og þá verður stefnan á góða bætingu!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli