Jæja, þá var komið að því. Fyrsta hlaup sumarsins á dagskrá og eitt það skemmtilegasta. Ég vaknaði snemma að vanda og fékk mér samloku með banana og te og gaf börnunum morgunmat í leiðinni. Svo tók ég því bara rólega og lagði mig aðeins og fékk mér aftur sama skammt af mat rétt fyrir 10. Milli 10 og 11 fengum við Sigrún okkur Leppin orkudrykk og eftir það var eina sem fór ofan í maga einn kaffibolli, rétt fyrir 12.
Sigrún og ég skokkuðum niður í Ráðhús rúmlega 12 og hittum hlaupafélaga okkar. Við hituðum upp í rólegheitunum og loks var klukkan að verða eitt.
Stefnan fyrir hlaupið var að rjúfa 17mín múrinn, vissi svo sem að það yrði erfitt. Ég stillti mér upp dálítið fyrir aftan Jón hlaupara á ráslínunni og fyrsti km var hlaupin á 3.24 sem var akkúrat planið. Næsti km var aðeins rólegri, 3.28, og enn var líðanin mjög góð. Þriðji km er meðal annars upp Suðurgötuna og þá byrjar að slá aðeins af sumum hlaupurum. Ég hélt þó haus og hélt mig fyrir aftan Þorlák sem keyrði áfram mjög örugglega upp brekkuna og fórum við fram úr e-m sem höfðu farið of geyst af stað og enn aðrir helltust úr lestinni sem högðu hangið í okkur þangað til að kom að brekkunni. Þegar komið var upp brekkuna reyndi maður aðeins að bæta í tempóið, því að það er auðvelt að tapa hraða eftir að hlaupa upp brekku. Ég var nokkuð ánægður með stöðuna á mér líkamlega og splittið á 3. km var 3.27. Nú var komið að erfiðasta kílómetranum, aðeins farinn að finna fyrir mjólkursýrunni og ég var búinn að missa Þorlák aðeins fram úr mér en náði þá einum hlaupara sem ég fór síðan fram úr á Sóleyjargötunni. Þegar kom að horninu á Sóleyjargötu og Skothúsvegi heyri ég Gísla LHF mann sem einmitt fór fram úr mér á þessum stað í fyrra. Hann er þá að hvetja þennan hlaupara sem reyndist vera skíðagöngumaðurinn mikli bróðir hans. Hvatningarnar fóru eitthvað öfugt ofan í mig en virkuðu á litla bróður Gísla sem náði að fara fram úr mér á svipuðum slóðum og Gísli gerði árið áður. Slæmt það! En hvað um það ég hélt áfram og skilaði mér í mark á 17.11 - sem er bæting um heila sekúndu, gott hjá mér!
Þegar ég var búinn að kasta mæðinni fór ég að fylgjalst með Sigrúnu koma í mark. Ég var varla kominn að markinu þegar Sigrún kom á harðaspretti og skilaði sér í mark á 22.08 - glæsilegt hjá henni og mikil bæting!!!
Ég held að margir hafi bætt sig í dag, en sérstaklega ánægjulegt var að sjá Birki koma í mark á 16.56. Frábært hjá honum!!!
1 ummæli:
Gísli þetta voru frábær hvatningarorð hjá þér, það vantaði ekki. Stuðaði mig bara þegar ég fattaði hver þetta var sem ég var að fara fram úr :-). Sjáumst á mánudagsmorguninn kl. 0630!
Skrifa ummæli