Ég hef ekki notað þessa síðu lengi en reikna með að vera duglegur að skrá æfingarnar mínar næstu vikurnar.
Nú er ég að "byrja" æfingar fyrir Frankfurt Marathon. 12 vikur í hlaupið og ég skipti tímabilinu upp í fjórar lotur.
Fyrsta lotan er þrjár vikur þar sem ég er að koma mér í gang, einbeiti mér að ná upp magninu, finna hraðann og nú ætla ég að prófa "speed development", sem byggist á stuttum sprettum, stílsprettum og stuttum hraðaaukningum og flétta þær inn í æfingar. Hugsanlega geri ég þetta út allt tímabilið.
Næsta lota verður líka þrjár vikur þar sem fókusinn verður á hraðaþolið og vonandi næ ég góðu hálfu maraþoni í lok þess tímabils, hugsanlega í Stokkhólmi.
Þriðja lotan verður fjórar vikur þar sem maraþonvélin verður tjúnið til og svo er síðasta lotan tveggja vikna rólegheit, sem er auðvitað erfiðasti hlutinn.
Ég er nú að koma úr þriggja vikna fríi eftir Laugaveginn og hef ég þó hlaupið ca annan hvern dag í 40-60 mínútur, svona til að halda mér aðeins við.
Í gær hitti ég Þorlák og félaga og hljóp niður í Laugardal og upphitun með þeim (9km) og þar sem það var mót á brautinni tókum við æfinguna á tjaldstæðinu. Byrjuðum á nokkrum hraðaaukningum og svo 6x800 með 90'' á milli. Ég hljóp þá á 2:44 og var bara nokkuð sáttur við það eftir fríið. Næst á dagskrá voru 4x200 og passaði ég mig að vera nokkuð skynsamur í þeim. Eftir þetta skokkaði ég heim á leið og labbaði inn á milli þar sem ég var orðinn vel þreyttur eftir frábæra æfingu. Rúmlega 20km dagur...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli