laugardagur, 18. ágúst 2012

RM hálft

Vaknaði kl. 6 og fékk mér súrdeigsbrauð með möndlusmjöri og bönunum og sötraði Te.  Rétt fyrir kl 7 hljóp ég ca 2,5 km.  Mér finnst það gott að hrista aðeins lappirnar og gera léttar teygjur fyrir keppnir.  Þá kemst blóðið á hreyfingu og ágæt hugleiðslustund.  Veðrið var orðið alveg príma, logn og blíða.  Ég var síðan heima til 8:20, drakk einn brúsa af íþróttadrykk, slakaði á og skokkaði niður að ráslínu.  Fyrsti maðurinn sem ég hitti var Friðleifur og stuttu síðar Flóka.  Tókum nokkra vaxandi spretti og síðan var allt klárt og stutt í hlaup.  Ég var vel stemmdur og reiknaði með að vera á bilinu 1:16-1:18.  Ekki alveg kominn í mitt besta form, 2. vika í æfingaprógrammi og ég er að auka álagið nokkuð þétt núna.  Draumurinn var að geta hlaupið með Arnari Péturssyni þangað til hann beygði inn á maraþonbrautina.  Því miður bauð formið ekki upp á það í dag en ég fékk mjög jákvætt hlaup sem er gott innlegg í nestispokann fyrir Frankfurt.  Fyrstu 5km voru á ca 3:37 en síðan datt ég niður á 3:45-3:47 næstu 11km.  Náði mér aftur á strik síðustu 5km og hljóp þá á ca 3:38 tempói.  Pústið var gott allan tímann, mér leið vel, en skrefið mitt er enn ekki orðið nógu gott til að líða vel á meiri hraða.

Tíminn 1:18:29 (10km/36:59).  Merkilegt nokk þá hljóp ég seinni helminginn í fyrra í Frankfurt  Maraþoninu á sekúndu betri tíma :-).  Þar var splittið (1:16:59/1:18:28).  Semsagt hörkuvinna framundan að verða betri en í fyrra....

Engin ummæli: